Þegar óskað er eftir breytingum
10.12.2008 | 12:58
Ég hef ekki sett hér inn nýja færslu í svolítinn tíma, tók jafnvel tíma frá bloggheimi þessum því það fór að verða frekar augljóst að því meira sem lesið var af bloggi því gramari og leiðari varð maður af ástandi þjóðar og jafnvel augljósrar heimsku sem grasserar á mörgum hverjum í þessu samfélagi.
Því fór sem fór, ég hélt áfram mínu lífi og sá að sápukúlan sem umvefur mann sjálfkrafa hjálpar mikið til við að komast í gegnum daginn án þess að finna fyrir hækkandi blóðþrýstingi og hneykslan á öllu því sem mbl.is hendir í okkkur. Svo fór allt á hausinn.
Ég varð því að sjá hvernig þeir sem telja sig hafa fingurinn á púlsi þjóðfélags okkar tjáðu sig um ástandið og var mér bæði brugðið hversu klofinn þjóðrembingurinn var og er. Sárafáir sjá sig knúna til þess að kynna sér málefni líðandi stundar til hlýtar og taka og tjá sig um upplýsingar og fréttir í tón sem sæmir ekki þenkjandi fólki. Smán er að sjá hversu margir fordæma hvers kyns aðgerðir gegn valdníðslu og óréttlæti í garð okkar allra og vilja helst ekki hrófla við neinu því það er ekki búið að gera sér grein fyrir alvarleika málsins.
Einna helst er að minnast á rökfærslu þeirra sem benda á að einungis örfáar hræður láta sjá sig og fleiri koma til að horfa á skrúðgöngu samkynhneigðra og heimkomu handboltamanna en að mótmæla og að þarna séu bara sömu gömlu fésin sem hafa verið að mótmæla síðan líf hófst á jörðu, ef svo mætti koma að orði. Gert er svo stólpagrín því aðeins 200 eða jafnvel 5000 manns láti sjá sig af sjálfri ríkisstjórninni, jafnvel segja að hér sé ekki um fólkið í þjóðinni að ræða. Það er rétt, þessar tölur eru ekki jafnháar þeirri sem hagstofa okkar gefur upp sem íbúafjöldi Íslands og eru bloggverjar ekki hikandi við það að strika undir þá fullyrðingu. Dæmin hinsvegar hafa sýnt að það eru lítil þjóðarbrot sem koma byltingum af stað eða mótmæla hverju sinni og samtímamenn þeirra fussa að venju og segja þá ekki í forsvari fyrir sig né aðra en sig sjálfa. Svo kemur bylting, breytingar verða að veruleika og hinir sömu fussandi skrílsupphrópandi samtímamenn snúa blaði sínu við rétt eins og pólitíkus segist ekki kannast við símtal eða prósentu. Að yfir 2% þjóðar safnist saman til þess eins að mótmæla er með þeim stærstu mótmælum sem gerist á þessari jarðarkringlu ekki gleyma því og horfa einungis á tölu þeirra sem mótmæla horfðu á heildartölu þjóðarinnar.
Það er ástæða fyrir þessu, og frekar einföld í þokkabót. Ríkisvaldið hefur ötult lagt sig fram við að koma því í undirmeðvitund okkar að þeir eru að gæta hagsmuna okkar frá blautu barnsbeini og því er óumflýjanlegt að þeir fá nokkuð góðan byr undir báða vængi þegar kemur að því að vernda þessar sömu skoðanir og ákvarðanir. Mótmælendur standa því ekki einungis fram fyrir ríkisvaldi heldur einnig þeim sem finnst líkt og verið sé að brjóta á foreldri sínu þar sem stuttbuxnapésarnir taka þessu sem persónulegri árás og allar aðgerðir eru því sem lögbrot. Gleymum ekki að í Frelsisstríði Bandaríkjanna voru 15-20% íbúa nýlendanna hliðholl bresku stjórninni í gegnum allt stríðið.
Svo kemur upp aðferðafræðin, eða mótmælendaaðgerðirnar sjálfar. Af hverju að kasta eggi, Hví að brjóta hurð, Hvernig réttlætið þið skrílslætin? Ég sem skattgreiðandi þarf að borga fyrir hreinsun! Þetta er það sem erfiðast er að kyngja á þessu bloggsvæði, þú sem skattgreiðandi þrusar yfir eggjahreinsun en sérð þér þó ekki fært að mæta til mótmælaaðgerða því nú fara skattar að hækka til þess að borga ennþá dýrkeyptari ákvörðun ríkisins. Þessi ákvörðun var óumflýjanleg, það gerum við okkur flest grein fyrir, en það er ekki því sem verið er að mótmæla. Forsendurnar - lygavefurinn, seinagangurinn, hrokinn, brotthvarf ábyrgðarmanna, skipulagðir karamellu-blaðamannafundir, minnisleysi ríkisvalds, misræmi í málflutningi, misskilningurinn, "ég kannast ekki við (x"), gegnsýrð fréttamennska, notkun almannafjár til fjárfestinga bankamanna (sem kemur svo aftur til Íslands í gegnum dótturfyrirtæki þeirra sömu), krosseignatengsl auðmanna, lélegar afsakanir, stjórn gömlu bankanna situr enn að mestu leiti, fjárfestingar þeirra á þrotabúi sinna eigin eigna, svona væri lengi hægt að telja upp atriði eftir atriði sem gefa ástæðu til þess að við þurfum að láta í okkur heyra. Það nægir þó ekki að fara út og öskra og láta kyrrt fyrir liggja, nú þarf að móta nýtt afl í stjórnmálum sem hafa það að leiðarljósi að uppræta þessum forsendum sem leiddi okkur að þessu feni þar sem við sitjum nú pikkföst fyrir miðju. Fólk heldur áfram að tala um ábyrgð - nú er það á okkar ábyrgð að mynda nýja hugsjón, nýja stefnu í stjórnmálum og láta á reyna, annað væri ábyrgðaleysi.
Þegar samstaða er þörf til að kalla fram breytingar þá er það allra síðasta sem við þurfum að vera ósammála hvaða veg við kjósum að ganga í átt að sama leiðarenda, sem er ekki punktur, heldur svæði (svo fólk fari ekki að tjá sig um hægri eða vinstri akgrein vegarins), svo lengi sem verið er að mótmæla sömu hugmyndinni skal fólk frekar kinka kolli í hljóði og ganga burt ekki verða fokillur því þú gætir ekki réttlætt aðgerðirnar fyrir sjálfum þér, enda ertu ekki sjálfur að framkvæma þær. Eina leiðin til þess að róttækar mótmælaaðgerðir skemmi fyrir heildinni er þegar og ef þú reiðist og telur þér í trú um að nú sért þú hættur öllum mótmælum. Ef þú getur tekið þessu með stóískri ró og haldið baráttu áfram þrátt fyrir að aðrir kasti eggi þá skalt þú gera það fyrir alla muni, annars ert þú að skemma fyrir heildinni. Hins vegar virðist það samhljómur flestra sem andmæla róttæku aðferðunum að þeir mótmæla ekki, þeir láta sér nægja að vera einungis ósammála ríkisvaldinu heima fyrir og í vinnunni en koma svo á moggabloggið og fordæma allt sem hentar ekki heimamótmælum þeirra og fá álíka öfgakennd andmæli frá hinni hliðinni og lætur það koma sér á óvart.
Ef vel er horft á og fylgst með þá er augljóst hvers vegna ástandið er líkt og í dag og því augljósara verður það að breytinga er þörf því svona á ekki að stjórna landi og þjóð. Tel ég að við séum meira og minna að mótmæla okkur sjálfum líka fyrir blindni og aðgerðaleysi okkar allt aftur til Byltingartilraunar Jörundar á Danaokinu sjálfu, Jónas gerði stólpagrín af okkar dugleysi í leikritinu Þið munið hann Jörund, þar lísti hann okkur fullkomnlega sem endurspeglast í laptop-tindátum pólitískrar rétthugsunar dagsins í dag, gerir ekkert en vill þó láta líta út fyrir að svo sé.
Við kunnum þetta einfaldlega ekki, við þurfum að sætta okkur við þá staðreynd fólk vill mótmæla og gerir vikum saman í friði, ríkisvald gerir lítið sem ekkert til að komast til móts við beiðni "fólksins", og því eru aðferðirnar að breytast. Hvernig er hægt að segja að róttækar aðgerðir eiga ekki rétt á sér núna þegar það er búið að sýna og sanna það að hinu friðsömu 17. júní skrúðgöngu-mótmæli okkar eru ekki að virka. Er verið að biðja okkur um að vera stillt á meðan hinu fullorðnu stjórnmálaforeldrar okkar sjá um þetta?
Til þess að vera sem minnst fyrir þá er krafist um að halda skrúðgöngunni áfram, svona svo sum okkar hafi eitthvað að gera í atvinnuleysinu. Það er verið að segja okkur að við eigum að halda áfram þeim aðgerðum sem virðast gagnlausar því þá geta þau þarna í turninum unnið í friði. Svo er eggjum kastað og fólk hneykslast líkt og um morð sé að ræða - skríll mættur og skemmir allt fyrir öllum, hvað er þessi skríll að skemma? Fyrir hverjum? Líkt og ég sagði áðan þá veltur það á viðbrögðum utanaðkomandi hvort þetta eigi að skemma fyrir eða ekki!
Ég held einfaldlega að ástæða þess að ríkisstjórn taki ekki mark á mótmælum okkar er sú sama og ríkir hjá þeim sem fara róttæku leiðina. Við höfum of sjaldan látið í okkur heyra og birtingarmyndir mótmæla sem við þekkjum utan úr heimi eru massífar og blóðugar sem virðast ná í gegn, við unga fólkið höfum það sem fyrirmynd úr sjónvarpi.
Ríkisvaldið hefur greinilega sömu skoðun, hér eru engin mótmæli fyrr en steinum er kastað og menn brenndir. Því miður.
Icesave hástökkvari viðskiptaleitarorða í Google | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.